9. janúar 2011

Jón Sigurðsson - og Landbúnaðarsafn

Á þessu ári eru 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Ótrúlega margt í íslensku þjóðlífi hefur meiri eða minni tengsl við störf hans og hugmyndir ef grannt er skoðað.

 

Árið 1872 skrifaði forsetinn t.d. aðöll aðalviðleitni vor nú eigi að vera framför í praktiskum hlutum, verzlunarsamtökum, jarðrækt, sjómennsku, vegabótum, og þar jafnframt „eindregið nudd“ um stjórnarbótina“... (leturbr.hér)

 

Af þessum sökum m.a. hvatti Jón forseti Guðmund jarðræktarmann Ólafsson, síðar á Fitjum, til dáða. Guðmundur varð hvað fyrstur til þess að taka plægingar upp að nýju hérlendis.

 

Landbúnaðarsafnið varðveitir plóg Guðmundar, líklega frá1851 - einn elsti gripur safnsins. Má þakka það hirðusemi og vinsemd fjölskyldunnar á Fitjum í Skorradal.

 

Jón forseti lét sig varða kynnisför Torfa Bjarnasonar til Skotlands árið 1866, ferð sem reyndist afdrifarík fyrir íslenskan landbúnað.

 

Þá beitti Jón sér fyrir útgáfu fyrstu bútæknibókarinnar sem kom út á íslensku - á vegum Þjóðvinafélagsins árið 1875, eftir Svein Sveinsson búfræðing: Leiðarvísi til þess að þekkja og búa til hin almennustu Landbúnaðar verkfæri...  heitir hún. 

 

Aldeilis stórmerkileg bók; titillinn segir nákvæmlega til um það sem í bókinni er að finna.

 

Þá má ekki gleyma gagnmerkri ritgerð um bændaskóla sem Jón birti árið 1849, né heldur Lítilli varníngsbók er kalla má tímamótaverk hvað snertir hugmyndir um nýsköpun íslenskra  atvinnuhátta.

 

Á minningarárinu 2011 er því vel við hæfi að Landbúnaðarsafn veki athygli á þeim rótum þess sem rekja má aftur til Jóns forseta. Hafa þegar verið lögð drög að því verki.

 

Það verður ekki gert með stóru húllumhæi heldur með látlausum hætti og þá í samvinnu við nefnd þá er skipuleggur og stendur fyrir atburðum til þess að heiðra forsetann og tveggja alda minningu hans, sjá http://www.jonsigurdsson.is/.

 

Einnig

http://jonsigurdsson.is/images/uploads/afmaelistidindi.pdf