5. janúar 2011

Erlendur verður yfirvélameistari Landbúnaðarsafnsins

Á liðnum vetrarsólstöðum var Erlendur Sigurðsson frá Sandhaugum í Bárðardal skipaður yfirvélameistari Landbúnaðarsafnsins frá og með 1. janúar 2011 að telja.

 

Við stutta athöfn árdegis í dag, 5. janúar, á verkstæði Jörva ehf á Hvanneyri þar sem Erlendur starfar jafnaðarlega var honum afhent skilirí til formlegrar staðfestingar á skipuninni.

 

Viðstaddir voru aðeins þeir sem máli skiptu og ræðuhöld yfrið knöpp. Veitingar engar enda Erlendur önnum kafinn við þarfari verk (ljósm.: Haukur Júlíusson).

 

Umræddri stöðu fylgja öll réttindi en skyldur aðeins að því marki sem yfirvélameistari sjálfur ákveður. 

 

Að lokinni þessari morguntöf hélt Erlendur störfum sínum áfram eins og ekkert hefði í skorist.

 

Þessa dagana er hann að hlúa að og glæða lífi gagnmerka Ford-dráttarvél, árgerð 1954, frá Laxamýri nyrðra: kostagrip og afmælissmíði Fords á 50 ára afmælinu (1953-54), þá einu er til Íslands kom.

 

Má búast við að hennar bíði sömu örlög og annarra véla, sem Erlendur hefur lagt hendur yfir: Að hún muni brátt hrökkva í gang.

 

Annars eru þeir félagar, Erlendur og Haukur, í þann mund að ljúka við endurholdgun hálfsjötugs Farmals A frá Fitjum í Skorradal. Sá á þar merka sögu. Stendur nú "battle-red"-gljáandi þar á Jörvagólfi og mun brátt anda að sér fersku lofti hins nýja árs og taka til hjólanna heim í Dalinn sinn... Enginn er þreyttur á heimleið, sagði hinn skagfirski leigubílstjóri Indriða G í 79 - af stöðinni...

 

Þannig var nú það.