3. janúar 2011

Landbúnaðarsafn heiðrar fyrirtækið Lífland ...

Gleðilegt ár, góðir lesendur, og þökk fyrir gengna árið.

 

Glöggir lesendur hafa ef til vill langt merki til þess að ár hvert undanfarið hefur Landbúnaðarsafn heiðrað eitt fyrirtæki með einkennistákni þess hér á heimasíðunni.

 

Landbúnaðarsafn hefur kosið þann hátt fremur en að fylla síðuna auglýsingum í fjáröflunarskyni, sem þó væri vel gerlegt.

 

Val fyrirtækis, sem þetta heiðurssæti hlýtur við áramót, fer fram með vandlegri íhugun þar sem gætt er að nokkrum mikilvægum sjónrmiðum:

 

1. Fyrir það fyrsta þarf fyrirtækið að stunda viðskipti við bændur og landbúnað í víðasta skilningi - og hafa getið sér bjarglegt orð á þeim vettvangi.

 

2. Í öðru lagi þarf fyrirtækið í nánustu fortíð að hafa nálgast Landbúnaðarsafn og/eða starfsemi safnsins á einhvern þann máta sem mælanlegur er.

 

3. Í þriðja stað þarf forstöðumaður safnsins að þekkja til forstöðumanns eða -manna viðkomandi fyrirtækis og hafa af þeim góða reynslu; þetta er gert til þess að halda við þjóðlegum hefðum í viðskiptum hérlendra manna.

 

Fyrirtækið Lífland reyndist uppfylla öll þessi skilyrði. Líflandi hlotnast því sá heiður að fá merki sitt (logo) birt á heimasíðu Landbúnaðarsafns árið 2011 endurgjalds- og kvaðalaust, með vísun til þessara raka:

 

Fyrirtækið Lífland selur bændum og búaliði mikilvæg rekstrarföng, ekki síst fóður, af metnaði sem vakið hefur athygli. Á síðasta ári færði fyrirtækið Lífland fóðurvinnslu sína í næsta nágrenni Landbúnaðarsafns, svo sem lesa má um á heimasíðu fyrirtækisins, www.lifland.is

 

Síðast en ekki síst þekkir heimsíðungur framkvæmdastjóra fyrirtækisins Líflands síðan báðir voru enn styttri en þeir þó eru núna - en út yfir allt tekur þó að heimsíðungur átti föður framkvæmdastjórans að velgjörðarmanni og vini á þeim tíma ævinnar þegar mótunin var hvað örust.  

 

Og þá er bara að vona að nýtt ár verði fyrirtækinu Lífland og okkur öllum gæfuríkt, hverjum með sínum hætti.