28. desember 2010

Árið 2011 - ár Kormáks og Deerings

 

Það ku vera fallegt í Kína, sagði skáldið. Þar í landi kenna þeir hvert ár ýmsu kviku svo sem frægt er: ár drekans er víst að kveðja þar nú. Heimspeki Kínverja í þessu efni og raunar fleirum hefur alltaf heillað heimsíðung.

 

Honum kemur því til hugar að kenna næsta ár við þá Kormák og Deering, búvélasmiðina frægu, sem meiri þátt áttu en flestir aðrir í því að efla jarðrækt og kornyrkju á nítjándu öld á sléttum Bandaríkjanna. Segja má að þeir og afkomendur hafi með því valdið byltingu í vestrænni verkmenningu.

 

 

Það ku vera fallegt í Kína, sagði skáldið. Þar í landi kenna þeir hvert ár ýmsu kviku svo sem frægt er: ár drekans er víst að kveðja þar nú. Heimspeki Kínverja í þessu efni og raunar fleirum hefur alltaf heillað heimsíðung.

 

Honum kemur því til hugar að kenna næsta ár við þá Kormák og Deering, búvélasmiðina frægu, sem meiri þátt áttu en flestir aðrir í því að efla jarðrækt og kornyrkju á nítjándu öld á sléttum Bandaríkjanna. Segja má að þeir og afkomendur hafi með því valdið byltingu í vestrænni verkmenningu.

 

Angar þeirrar byltingar náðu til Íslands, með svo afdrifaríkum hætti að tæki með nöfnum þeirra félaga,  annars hvors eða beggja, kom við sögu á hverjum einasta bæ á Íslandi – ýmist með beinum eða þá með óbeinum hætti.

 

Árið 2011 verða 180 liðin frá því Cyrus McCormick tókst fyrst að skera korn með vél. Þá verða hins vegar liðin 130 ár frá því William Deering sló gamla Kormák út með kornbindara sínum (Marsh harvester).

 

En áður en þeir Kormáksmenn og Deering í hörðu viðskiptastríði, sem löngum hefur þótt dáð athafnamanna þar vestra, náðu að drepa hvorn annan, stilltu skynsamir menn til friðar. Þeir bentu Kormáki og Deering á að veröldin öll væri vélaköppum sem þeim verðugri vettvangur en heimahrepparnir, þó stórir væru.

 

Kapparnir féllu fyrir hugmyndinni, hættu að berja hvor á öðrum og hófu útrás undir merkinu IHC; gerðu eins og Egill Skallagrímsson: voru friðsamir heima fyrir en þeim mun stórhöggari í erlendum sóknum.

 

Landbúnaðarsafn Íslands óskar þess að árið 2011 – ár Kormáks og Deerings – verði landsmönnum öllum farsælt. Og að landsmenn láti fordæmi þeirra vestanmanna verða sér nokkra fyrirmynd, með því að beina kröftum að sameiginlegu markmiði en sundra þeim ekki með innbyrðis baráttu. Þá mun vel fara, alveg eins og hjá IHC.