22. desember 2010

Gleðilegar hátíðir og gott ár!

Enn hverfur sól um baug sinn og leggur á brattann: Boðar komu nýs árs með nýjum dögum - rétt einu sinni enn. Þótt mönnunum takist misjafnlega að haga sínum háttum geigar gangur hennar ekki - og hvað sagði ekki Rauðsendingurinn um árið: Ekki veit ég hvar við værum ef við hefðum ekki þetta sólargrey.

 

Og í gær minnti sólin okkur á að jafnvel tunglið á alla tilveru sína sólinni að þakka.

 

Það er heldur ekki tilviljun að hugtökin sól og jól eiga flest sameiginlegt; það munar bara einum bókstaf. Jólin sem tákn hlýjunnar er kemur að innan, græðir og gefur, rétt eins og geislar sólar gera hið ytra.

 

Þess vegna sendir Landbúnaðarsafn Íslands öllum velunnurum sínum vítt um land bestu óskir um gleðileg jól - umvafin hlýju og yl hið innra, sem hækkandi sól með nýju ári mun hjálpa öllum til við að breyta í gagnleg störf og gleði í sérhverju dagfari.

 

Með kveðju þessari fylgir dálítil krotmynd úr penna heimsíðungs sem minna skal á hinn þunga straum tímanna en líka mikilvægi iðjuseminnar.

 

Gamla konan, sem gæti verið hún Gugga ömmusystir mín, fangar þarna heyin sín, að vísu ögn hrakin eftir dálp daganna eins og gjarnan verður, en grösin sprottin við geisla blessaðrar sólarinnar sem elskar allt og allt með kossi vekur.

 

Stráin í heygarðinum, þessum herskara tímanna safns, dregur sú fullorðna upp í snotur föng áranna - í föng jafnt eiginlegrar og óeiginlegrar merkingar - föng til varðveislu og seinni nota, með hrynjandi sem engin fær haggað og trúmennsku, ræktaðri kynslóð fram af kynslóð ... hleypur ekki frá hrífunni þótt hark, sköll og háværð berist frá hjástreymandi umferð.

 

En allt um það.

 

Heimsíðungur sendir öllum ykkur hátíðarkveðjur fyrir hönd Landbúnaðarsafns Íslands. Gleðjumst yfir nýju ári og nýtum það til þarfra verka, hver við sína hrífu,  en líka til þess að njóta þess sem gefst - okkur sjálfum og samferðafólki til eflingar í græðandi samhug.