16. desember 2010

Hver þremillinn er nú þetta?

Nú, nærri vetrarsólhvörfum, hvarflar hugur vor ýmist með lúans trega til liðinna vora eða í æskuþéttri hlökkun til komandi sóltíðar. Í bitru frosti dimmra desemberdaga finnum vér ilm af nýunninni jörð sem bíður þess að verða aftur græn - þrungin góðjurtum er binda geisla sólarinnar svo bera má fram á jötu þegar aftur setur að með skammdegi.

 

Á fjörur vorar skolaði fyrir allnokkru ljósmynd af manni klæddum að hætti eftirstríðsáranna fyrri er handleikur áhald hvert verður umræðuefni dagsins.

 

Myndina mun hafa tekið Árni G Eylands, á að giska á 3. áratugnum. Sennilega er myndin tekin undir vegg Búnaðarfélagshússins gamla við Lækjargötu 14 í Rvík skammt þar frá sem andfulgar Tjarnarinnar hafa í áranna rás iðkað sund og kvak vegfarendum til yndisauka - sumum á ferð þar á síðkvöldum prúðbúnum í erindum sem engan varðar um...

 

Sé myndin rétt staðsett er hún tekin fyrir hádegi vinnudags, enda voru þjónar bænda, sem þarna störfuðu, þekktir fyrir að rísa árla til verka og ganga síð til sængur. 

 

En Tjörnin, rómantíkin og endurnar mörgu eru aukaþáttur þessa pistils því hann snýst um verkfæri það sem hinn prúðbúni maður handleikur.

 

Verkfærið virðist smíðað úr vönduðu stangarjárni, hugvitsamlega sniðið, beygt og saman fellt með fírkantshausa boltum: Kjálkar aftur, sem á plógi, og krókur fram til hestaeykis.

 

Í milli kjálkanna gengur afturbogið járn, sem líklega er egg. Heimsíðungur giskar því á að hér fari einhvers konar skeri, þúfnaskeri, að öllum líkindum smíðaður í landinu sem þá var rétt orðið fullvalda - með æskublik í öllum sínum viðhorfum og gerðum frá hafi til heiða...

 

... gerðum sem m.a. miðuðu að því að efla fullveldið með því að fá vopn á þúfurnar, þessa árans nabba á foldargrund sem stálu svo miklum tíma, svo miklum þrótti, svo mikilli starfsgleði frá sláttumönnunum - Það er þess vegna sem íslensk tunga notar hið magnaða orð þýfi um þetta aldagamla túnamein - rétt eins og um varning sem tekinn hefur verið ófrjálsri hendi.

 

Heimsíðungur er ekki enn kominn svo langt í rannsóknum sínum að hann viti nákvæmlega sögu þessa einfalda verkfæris. Hefur hann þó lesið þónokkuð í bréfasafni Árna G Eylands og ýmsum ritum frá líklegum tökutíma ljósmyndarinnar.

 

Kannski getur einhver glöggur lesari bætt hér við takmarkaða vitneskju?

 

Þekkt er að ýmsir lendir hugvitsmenn smíðuðu þúfnaskera, því sannarlega voru þúfurnar ögrandi þjóðarmein allt til þess tíma að jarðolíuknúnar aflvélar með þúfnabanann í broddi fylkingar komu og unnu á þeim betur en áður hafði tekist.

 

Finnast þær þó enn - því þær eru bæði þráar og seigar rétt eins og landar þeirra sem um þær fara iljum sínum...