8. desember 2010

Hestasláttuháttasöfnunin þokast áfram

Á liðnu hausti var sagt frá söfnun okkar á fróðleik um slátt með hestasláttuvélum.  Með góðra manna hjálp höfum við haft upp á körlum og konum sem ýmist stunduðu þetta verk að ráði eða kynntust því svo að aflögufær eru um lýsingu á verkinu.

 

Við höfum þegar fengið svör frá fimmtán aðilum og álíka margir eru að undirbúa svör sín. Ljóst er að þarna mun safnast verulegur fróðleikur um verk sem stundað var á fjölmörgum býlum landsins á löngu skeiði síðustu aldar.

 

 

Jafnframt þessari „þjóðháttasöfnun“ er verið að safna glöggum og fræðandi ljósmyndum af verkinu svo og heimildum sem til eru í ritum, bókum og blöðum. Helst þyrfi safnið að fá ungan og áhugasaman vinnukraft til þess að koma verkinu áfram – þ.e. með söfnun, skráningu og úrvinnslu.

 

Þeir u.þ.b. þrjátíu hestasláttarkunnáttumenn, sem heimsíðungur hefur þegar náð til,  sýna að enn eru á meðal vor býsna margir er verkið þekkja og geta miðlað fróðleik sem og frásögnum tengdum verkinu.

 

Ef þú veist um hestasláttarkunnáttumann bið ég þig endilega að vekja athygli hans á eða færa honum afrit af sjálfri spurningaskránni, sem finna má hér.

 

Að svara spurningaskránni getur verið afar skemmtileg tómstundaiðja í skammdeginu og kærkomin hvíld frá umræðu um hana Ísbjörgu, Þjóðlagaþingskosningarnar, Víki-lekann eða vopnaskak þeirra Norðurkóreumanna, þótt allt séu það gagnmerk mál sé grannt skoðað.

 

Þakkir til þeirra sem þegar hafa lagt sláttuháttasöfnuninni lið.