4. desember 2010

Um Raunaland og Dagsláttu Drottins ... meira af örnefnum túna

Nokkur viðbrögð hafa orðið við síðustu skrifum hér í þessum dálki. Dæmi um þau verða nefnd hér til þess að sýna að margt getur legið að baki örnefnum, sem og það að örnefni eru ekki öll mjög gömul.

 

Þá kemur það einnig fram í dæmunum að á bak við nafn liggur oft nokkur saga sem varpar ljósi á umhverfi og atvik. Í örnefnunum verða landið og sagan þannig eitt - líf landsins fær viðbótarvídd.

 

Myndin, sem skrifunum fylgir og er tekin yfir hluta Borgarhrepps, er fengin af hinni ágætu heimasíðu Mats Wibe Lund (www.mats.is )

 

Á bæ einum norður í Skagafirði hét Tvíburamór vegna þess að á bænum fæddust tvíburar sumar eitt þegar verið var að taka þar upp mó. Seinna var stykkið ræst og sléttað. Heitir síðan Tvíburaslétta.

 

Á lítilli jörð á Vesturlandi rak bóndi bú sitt og heyjaði svo sem lög gerðu ráð fyrir hvert sumar. Hins vegar varð honum þurrkurinn víst stundum misdrjúgur þannig að oftar en ekki hraktist honum hey, svo það sem við sláttinn var grænt varð fljótlega hrakið og gult. Ein stærsta spilda túnsins lá vel við alfaraleið svo blasti við vegfarendum. Afbæjarmenn tóku því að kalla spilduna Gullteig.

 

Á öðrum borfirskum bæ heitir mikil spilda Raunaland. Skýringin er sú að illa gekk að koma rækt í stykkið. Rannsóknamenn frá Hvanneyri lögðu því þar út tilraun með mismunandi áburð og skammta til þess að reyna að finna ástæðuna. Nafnið vísar að sögn bónda til tilraunarinnar og ræktunarraunanna. Enn er efri hluti spildunnar ófrjósamur...

 

Á sama bæ er spildan Tómasarhagi enda heitir gröfumaðurinn Tómas er ræsti spilduna svo ágætlega fram ...

 

Og svo kemur dæmi frá Hvanneyri en þar heitir stór og grasgefin spilda Kjarnorkuslétta:

 

Á öndverðum 7. áratugnum voru á vegum ríkisins gerðar rannsóknir á því hvernig koma mætti nytjagróðri í land sem orðið hefði fyrir eyðingu af völdum geislavirkni og kjarnorkuáhrifa en það tvennt var þá mjög í umræðunni. Í stað þess að dúndra sveppsprengju úr smiðju útlendra stríðsmangara yfir saklausan túnbleðil fjarri heimsins vígaslóð voru áhrifin leikin með eiturefnum, sem þá þóttu næst ganga slíkri andstyggð að virkni.

 

Valur góðgrasanna var síðan herfaður, tættur og í hann sáð hraðsprottnum nytjajurtum og uppskeran rannsökuð til hörguls. Úr huga heimsíðungs er runnið hver niðurstaðan varð, en sjálfsagt hvíla tölur allar í rykföllnum skjalabunkum í góðri geymslu. Hins vegar mun þetta ekki hafa verið leikið aftur – en kúskar og smáhúmoristar í hópi staðarmanna tóku upp nafnið sem alþekkt er í dag enda spildan í miðju Hvanneyrartúni.

 

Til allrar guðslukku hefur kjarnaorkuprengjan enn ekki komið hingað í Andakíl en spildunafnið Kjarnorkuslétta er okkur huglausum friðarsinnum næg ógn og áminning um vondleik heimsins...

 

Friðsamara var hins vegar í kringum spilduna góðu við innanverðan Dýrafjörð sem þar brosir afgrit við sólu sumar hvert. Vildisjarðvegur er þar undir auk þess sem bóndi lék við spilduna í ræktun. Hún naut áburðar, ljóss og annarrar virktar í það ríkum mæli að spilduna sló bóndi jafnan fyrst og varð þá nokkuð á undan öðrum bændum að hefja túnaslátt. 

 

Í munni nágranna gengur spildan ætíð undir nafninu Dagslátta Drottins. Heimsíðungur er ekki frá því að hvort tveggja sé réttnefni ...