28. nóvember 2010

Gömul örnefni - og ný

Á flestum bæjum eru örnefni enn notuð til margvíslegra viðmiðana. Mörg þessara örnefna eru gömul. Líklega er erfitt að aldursgreina þau flest. En einhvern veginn urðu þau til og einhvern veginn verða þau til enn þann dag í dag. 

 

Fræðimaður í þjóðfræðum hafði samband við heimsíðung á dögunum vegna verks sem hann er að vinna og varðar örnefni sem tengd eru landbúnaðarframförum.

 

Þetta merkilega erindi er umræðuefni dagsins. Myndin sem því fylgir er frá Hvanneyri og þar sjáum við m.a. spilduna Ásgarð nýslegna.

 

Fræðimaðurinn benti á urmul örnefna sem tengist t.d. sléttum, görðum, veitum (áveitum) ofl.; nöfn sem rekja sig líklega flest til fornra verkhátta við túnasléttun, vörslu lands og vatnsmiðlun.

 

En svo komu til ýmsar búnaðarnýjungar og breyttir búskaparhættir sem ef til vill kölluðu fram ný örnefni með skírskotun til nýmælanna. Líklega er þar oftast um að ræða túnspildur ræktaðar á seinni árum þar sem nýnefnin kunna að vera leidd af

 

- nöfnum tækja sem beitt var við vinnslu þeirra

 

- manna sem spildurnar unnu

 

- framandi nytjajurta sem þar voru ræktaðar

 

- atvika sem tengdust vinnslu spildunnar, og þar fram eftir götum...

 

Taka má dæmi um nöfn úr þessum flokkum svo sem

 

Þúfnabanaslétta, Pétursslétta, Hafraslétta og Milljón...

 

Örnefnaskrár, sem safnað hefur verið til með opinberum hætti (nú hjá stofnun Árna Magnússonar, www.arnastofnun.is/page/arnastofnun_ornefnastofnun_islands), voru flestar gerðar fyrir allmörgum áratugum, þótt leitast hafi verið við að færa þær til nútíma.

 

Ýmsir eru ragir við að halda fram nýrri örnefnum, þykir tilurð þeirra etv ómerkileg og að þetta séu tilviljanakennd nöfn, jafnvel notuð í háði og kerskni ... en er það ekki einmitt með hinum óformlega hætti sem nöfnin verða oftast til? Fáir lýsa formlega yfir hinum nýju nöfnum líkt og nefnt væri skip eða flugvél...

 

Ósköp væri gaman að hver liti nú nær sér og leiddi hugann að nýrri örnefnum í nærlendi sínu, t.d. nöfnum sem kunna að tengjast landbúnaðarframförum og breyttum búháttum.

 

Heimsíðungur tekur fúslega á móti ábendingunum fyrir hönd Landbúnaðarsafns og mun jafnframt koma þeim áfram til fræðimannsins, sem áðurnefnt verk vinnur, og þá eftir hætti annars örnefnafræðifólks.

 

Nota má símann 844 7740 og tölvupóstinn bjarnig@lbhi.is