15. nóvember 2010

Um þormhald, múgtein og klóstag ... Á Degi íslenskrar tungu

 Á íslensku má alltaf finna svar ... syngur unga stúlkan. Í tilefni Dags íslenskrar tungu eru fáein orð um það þegar ný tækni tók að berast til landsins og smíða þurfti orð til þess að lýsa hlutum og háttum.

 

 

Til dæmis ef panta þurfti varahlut. Hvað hét hann á íslensku? Það þurfti að segja mönnum til, kenna? Hvernig átti að orða tákn hinna nýju tíma? Hvernig báru menn sig að?

 

Skoðum dæmi.

 

Líklega var hestasláttuvélin fyrsta búvélin sem umtalsverða útbreiðslu hlaut hérlendis. Hennar hlutverk varð því að bera véltæknina heim á marga bæi. Og ekki var beint hægt að segja að vélin væri einföld í byggingu.

 

Til að auðvelda bændum viðhald og varahlutakaup gekk Árni G. Eylands í það að gera orðalista á íslensku yfir hina mörgu hluti sláttuvélarinnar (Herkules). Um verkið skrifaði Árni (Búnaðarrit 1926, m.a. á bls. 234):

 

Nokkrir örðugleikar eru á, að velja ýmsum hlutum sláttuvjelarinnar íslensk heiti. Eru hjer notuð þau vjelfræðiorð sem viðurkend hafa verið, og birt eru í tímiriti verkfræðingafjelagsins.

 

 

Auk þess hafa þeir fjallað um nafnavalið, málhreinsunar-nefndarmennirnir, prófessor Sigurður Nordal og Guðmundur Finnbogason, landsbókavörður, og kann jeg þeim bestu þakkir fyrir það.

 

Vel yfir 130 orð urðu til eða voru kölluð til nýrra nota. Til dæmis:

 

stálvar

ljáhaus

ess

gikkur

hjörur

klóstag

tengiás

hlaupastelpa

sætisfjöður

tannhjólaverja

hjarateinn

hleypijárn

teinaleg

klofnagli

ljáklemma

framhemlar

afturhemlar

spöng .....

 

Sum orðin urðu alþekkt - önnur fengu ekki vængi. En orðalistinn dugði til þess að menn velktust ekki í vafa um við hvað var átt þegar pöntun á biluðu stykki var gerð eða þegar kenna þurfti meðferð sláttuvélarinnar.

 

Aðdáunarverð elja og vandvirkni, sem enn í dag er okkur fyrirmynd. Því hvað sem hver segir býr íslensk tunga yfir hæfni til þess að laga sig að býsna margvíslegum þörfum í samskiptum manna - eins og dæmin sanna.

 

En til þess að geta það þurfum við að leggja rækt við hana rétt eins og annan gróður, sem án hirðu kafnar í illgresi og skilar lélegum ávexti.

 

Og svo getur málræktin verið verðugt verkefni og takmark í sjálfu sér eða eins og Jónas sagði sjálfur:

 

... orð áttu enn eins og forðum mér yndi að veita...