5. nóvember 2010

Skurðgröfuflekar - íslensk uppfinning?

Á hinum miklu skurðgraftarárum þegar dragskóflugröfur möluðu í víðum mýrum landsins frá vori og fram á gormánuð brá stundum við að þunnt gerðist undir þeim. Gat þá illa farið.

 

En skurðgröfukarlar höfðu ráð undir rifi hverju. Smíðaðir voru sérstakir flekar sem lagðir voru undir gröfuna og hún gat staðið á við gröftinn. Þannig flaut hún yfir ótrúlegustu foröð og gróf nauðsynlega skurði.

 

Meðfylgjandi mynd sýnir hluta gamalla skurðgröfufleka sem nú fúna og ryðga þar í sverðinum sem þeir brátt munu samlagast. 

 

Heimsíðungur hefur áður vakið máls á efninu.

 

Það sem hann veltir fyrir sér nú er hvort hér muni vera um íslenska uppfinningu/aðlögun að ræða. Nú eru fáir eftir sem muna hina fyrstu tíð skurðgrafanna og líklegt er að flekarnir hafi komið mjög snemma til sögunnar.

 

Ef lesendur þekkja til málsins væri afar gaman að heyra frá þeim. 

 

Flekarnir voru traustleg smíð; víst úr 2" þykkum plönkum og einir 4-5 má lengd, líklega ein 2-3´á breidd. Flekarnir voru járnslegnir eins og myndin sýnir.

 

Á járngerði um annan enda hvers gröfufleka var soðinn mikill krókur, sem vel sést á myndinni. Undir hann brá gröfumaður annarri keðjunni sem í skófluna lá og hagræddi flekanum síðan með gálga og spili gröfunnar.

 

Sýndu gröfumenn undra lipurð við hagræðinguna. Ætli þeir hafi ekki notað eina 4-5 fleka og þá þannig að alltaf var a.m.k. einn laus til að leggja fyrir og færa gröfuna upp á.

 

Í bleytu og drullu urðu flekarnir hálir og þegar við bættust skaflalaus belti gröfunnar gat henni skrikað fótur ef flausturslega var farið. Rynni grafan út af flekunum fóru daprir tímar í hönd.

 

En allt er þetta heimsíðungi í móðu og því væri vel ef einhver, sem textann les, kynni sjálfur eða í gegnum heimildarmann úr að bæta.

 

Það er ekki hlaupið að varðveislu flekanna. En myndir eigum við og einn daginn förum við með málband og nákvæmari skráningartæki á staðinn, sem er á árbakka við lygnan fjörð, djúpan og langan, og skráum minjarnar ef ekki koma aðrar í ljós nær okkur í kílómetrum talið ...