30. október 2010

Af stormi í vatnsglasi ...

Landbúnaðarsafn, LbhÍ og Jörvi höfðu blásið til sjöunda forntraktora-námskeiðsins í dag, laugardaginn 30. október. 26 þátttakendur höfðu skráð sig - sem á okkar máli þýðir að yfirfullt var orðið.

 

Sl. fimmtudag hóf Veðurstofan að spá stórviðri námskeiðsdaginn og nokkrir uggandi þátttakendur höfðu samband. Var þá skotið á skyndifundi með veðurkort www.vedur.is að meginfóðri en heilbrigða skynsemi sem viðbit.

 

Að öllu virtu var talið rétt að fresta námskeiðinu um slétta viku: til laugardagsins 6. nóv. og tilkynning send til allra væntanlegra þátttakenda.

 

Heimsíðungur tók sér morgungöngu á þessum blessaða degi, laugardeginum 30. okt., rétt í birtingunni. Veðurathugun hans, gerð með þeim fáu hárum sem hann á enn eftir á skallanum, sýndi að vart bærðist hár á höfði:

 

Loft var þunnt hvert sem litið var og síðustu blesgæsirnar æfðu farflug sitt í rólegheitum vestur yfir Hvanneyrartúnum. Hundgá heyrðist úr löngum fjarska og ég sá að Magnús B var búinn að hella uppá.

 

Veðurspáin hafði sem sagt brugðist og við hlaupið á okkur. En ekki veldur sá er varar. Miklu alvarlegri hefði staðan orðið ef Veðurstofa hefði spáð blíðu en Hann svo skellt í ofsarok á okkur hér í miðju kafi umræðna um Farmal, Deutz eða gráan Ferguson og þreifinga á þeim ...

 

Nú notum við þessa helgi til annarra þarfra verka og hlökkun okkar til námskeiðsins lengist um rétta viku. Það er nefnilega tilhlökkunin sem er meginmálið í flestu sem við tökum okkur fyrir hendur.

 

Hins vegar verður ekki hjá því komist að hryggja óskráða með því að námskeiðið er fullbókað og ekki hægt að taka við fleirum nema forföll verði tilkynnt í tíma.

 

Ekki er útilokað að við höldum fleiri námskeið ef spurn verður eftir þeim.

 

Njótum svo blíðunnar á deginum sem átti að verða gróflega vindskafinn af norðaustri. Traust okkar á Veðurstofunni er samt með öllu óbreytt - við tökum nfl. ekki alltaf eftir því þegar hún verður okkur að liði með veðurspám sínum.