21. október 2010

Hestasláttuvélamenn bregðast vel við...

Hestasláttuvélamenn hafa brugðist vel við þjóðháttasöfnun okkar, þeirri er fyrr var kynnt hér á síðunni. Borist hefur tugur svara og von er á öðru eins. Sérstaklega er ánægjulegt að í hópi svarenda eru tvær konur.

Þótt nær hálf öld sé liðin frá því síðustu hestasláttuvélunum var lagt er verkið ekki með öllu horfið úr minni fólks. Verður fróðlegt að raða saman svörunum þegar þar að kemur.

 

Um leið og frá þessu er sagt vill heimsíðungur enn eggja þá lögeggjan sem til vélsláttar með hestum þekkja eða vita af fólki sem enn man þetta verk, umgjörð þess og andblæ.

 

Svörin, sem þegar eru komin í hlöðu, sýna að um lítinn fróðleik munar þegar hann bætist við annað efni. Hafið því engar áhyggjur þótt ykkur þyki sem þið munið fátt: Margt smátt gerir nefnilega eitt stórt, ekki bara eitt lítið eins og Strandamaðurinn sagði....

 

Til þæginda skal vísað á spurningarskrána um hestasláttinn sem hafa má til hliðsjónar þegar verkið er rifjað upp.

 

Við miðum við að hafa fengið svör frá sem flestum heimildarmönnum áður en komandi fengitíð hefst.

 

Með góðum þökkum til heimildarmanna, sem þegar hafa lagt fram skerf, og baráttukveðjum til hinna er nú vinna í svörum sínum eða eru tilbúnir að hefja það verk.