1. október 2010

Flott framtak þingeyskrar heimasætu!

Fyrir nokkru greindum við frá söfnum fróðleiks um vélslátt með hestum sem safnið hefur hrundið af stað. Við þessari beiðni brást m.a. hún Sigríður Atladóttir á Laxamýri, en hún er nemandi í Hafralækjarskóla í Aðaldal.

 

Sigríður sótti spurningaskrána, sem lögð hafði verið hér inn á heimasíðuna, skrapp yfir til afa síns, Vigfúsar B. Jónssonar, er lengi var bóndi á Laxamýri, og skráði frásögn hans.

 

Með spurningaskrána til hliðsjónar skráði Sigríður síðan frásögn afa síns af verkinu og ýmsu er það varðaði. Vigfús kunni vel að lýsa því, en hann var aðeins 12 ára er hann hóf að slá með hestasláttuvél á búi foreldra sinna, Þingeyingsins Jóns H. Þorbergssonar og Borgfirðingsins Elínar Vigfúsdóttur.

 

Í dag kom svo Sigríður með foreldrum sínum í heimsókn í Landbúnaðarsafnið og afhenti greinargerð afa síns, sem hún hafði unnið og gengið frá með miklum ágætum.

 

Tækifærið var notað og mynd tekin af afhendingunni sem fór fram við Ford-dráttarvél árgerð 1954 er Laxamýrarbændur afhentu safninu fyrir skömmu og heimsíðungur hefur lofað að segja lesendum frá innan tíðar.

 

Sigríður varð sú þriðja sem skilaði inn svörum við spurningaskránni. Við erum ekki viss um að margir yngri verði til þess. Hins vegar vonum við að framtak hennar geti orðið jafnöldrum hennar fyrirmynd, ungmennum sem eru svo heppin að eiga afa og ömmur sem muna þetta verk og hafa tekið þátt í því með eigin höndum.

 

Sigríður Atladóttir á Laxamýri er mjög áhugasöm um búskapinn. Hún á örugglega eftir að bera arf góðrar búmennsku og rótgróinnar sveitamenningar áfram - og þá líklegast sem bóndi á Laxamýri.

 

Við þökkum Sigríði frumkvæði hennar og framtak, og óskum henni og fjölskyldu hennar alls hins besta í framtíðinni.