17. september 2010

Haukur Júlíusson endurreisir Nalla

Nýlega fréttist af óvæntum sigrum gulra og (núorðið) glaðra og af því tilefni köllum við til sögu fagurrauða dráttarvél sem barst til landsins á sjöunda áratugnum. Hún ól aldur sinn mestan í dölum Suður-Þingeyjarsýslu og kom síðast frá Rauðá.

 

Þetta er International B 414, 1963, smíðuð eins og B-ið bendir til í Bretlandi. Dráttarvélar þessar nutu á sínum tíma vinsælda hérlendis.

 

Haukur Júlíusson Jörvamaður frá Móbergi á Rauðasandi og Erlendur yfirvélameistari Landbúnaðarsafns Íslands Sigurðsson frá Sandhaugum í Bárðardal pússuðu Nallann listilega vel upp í vetur leið, rauðan og mjólkurlitan, svo sem vera ber.

 

Á myndinni sjáum við Hauk reyna Nallann í laufskjóli greina við bæjarlækinn á Hvanneyri einn fargran sunnudag í september. Ásdís Helga Bjarnadóttir hirðljósmyndari Landbúnaðarsafns tók myndina.

 

Þeir Haukur og Erlendur hafa endurvakið hinn harða og trausta gang Nalla-mótorsins. Undurlétt vökvastýrið sem einkenndi B414 á seinni velmektardögum hans skortir að vísu á þessa árgerð en útlit Nallans er óaðfinnanlegt hjá þeim félögum.

 

Ef til vill gljáir Nallinn ögn meir nú heldur en gerði nýr úr búð kaupfélagsins en það er bara í samræmi við þann gljáa sem minningar fá á sig með árunum.

 

Allavega runnu í návist Hauks-Nalla upp fyrir heimsíðungi þær tíðir er faðir hans hafði með milliskrift í reikningum kaupfélagsins eignast slíkan, líklega 1965. Sá var með vökvasláttuvél og moksturstækjum.

 

Munaður þótti að lyfta til vagns smásignu heysæti í einu dragi ellegar fullri skóflu af steypumöl fyrir framtíðina og geta þó stýrt með einum fingri. Þótt allmörg kíló vægi Nallinn var alltaf vissara að hafa grjótfulla tunnu á beisli og þverbita svo afturhjól dráttarvélarinnar gætu líka haft eitthvað fyrir stafni meðan á mokstri og flutningi hlassins stóð.

 

Því verður ekki neitað að B 414 er afar stílhrein dráttarvél: þar akur ei blettar þar skyggir ei tré sagði Einar Ben.: Útlínur einfaldar og skýrar, þótt alltaf hafi púströr og loftinntak pirrað heimsíðung örlítið (...það voru dulin fergusonáhrif). Eiginlega má rekja þessar einföldu línur aftur til hans Raymonds Loeweys sem á sínum tíma gaf Farmalnum hið tímalausa útlit sitt.

 

Hauki og Erlendi er óskað til hamingju með vel unnið og vel heppnað verk.