6. september 2010

Vífilsstaðir - vettvangur búnaðarnýjunga

Um þessar mundir er nokkuð rætt um Vífilsstaði og breytingar sem þar eru að verða.

 

Orð dagsins á þessari síðu verða því helguð þeim stað.

 

Satt að segja eru Vífilsstaðir (og Reykjalundur) meðal þeirra staða sem heimsíðungi er hlýjast til úr uppvexti sínum. Síðast, og þá á sjötta áratugnum ofanverðum, sáum við eftir nágranna okkar, ungum og æskuhraustum manni sem var að taka við búi fjölskyldunnar, suður á Vífilsstaði, um haust. Hvíti dauðinn hafði merkt sér hann.

 

Fólkið heima var uggandi: á eftir svo mörgum - frændfólki og nágrönnum, hafði það séð áratugina á undan, mörgum sem ekki komu aftur ... 

 

En nágranninn okkar ungi kom aftur. Hrafnkell og hitt fólkið á Vífilsstöðum höfðu náð vopnum - börðust við hvíta dauðann og höfðu betur.  Gleði ríkti aftur á bænum handan við ána, framtíðin brosti  aftur; heima var andað léttar...

 

Það var líka ár hvert tekið fagnandi á móti merkjasölufólki SÍBS sunnudaginn í byrjun október. Heimilisfólkið vissi að hér var verið að leggja góðu málefni lið. Þar lögðust margir á eitt.

 

En heimsíðungur ætlaði að nefna aðra sögu um Vífilsstaði.

 

Þar var lengi rekið myndarlegt bú sem kunnugt er (sjá m.a. Mbl. í gær, 5. sept.). Á þessu búi voru fyrst reyndar ýmsar þær nýjungar í búskap sem síðar urðu vel þekktar um allt land. Margir vistmanna úr sveit sáu þar nýmæli sem vafalaust hafa blásið þeim umbótalöngun í brjóst  - að reyna þegar heilsa fengist og heim yrði komið.

 

Kannski hafa nýmóðins búnaðarhættirnir á Vífilsstðum jafnvel átt þátt sinn í því að heila aftur margan sveitamanninn sem hvíti dauðinn hafði ætlað að merkja sér.

 

Heimsíðungur er þess á engan veg umkominn að skrifa búskapar- og nýmælaannár Vífilsstaðabúsins. Það væri þó verðugt verkefni.

 

Ef til vill er einhver tilbúinn að taka saman búnaðarsögu Vífilsstaða?

 

Heimsíðungur bendir lesendum hins vegar á að allvíða í bók Árna G. Eylands, Búvélar og ræktun, er sagt frá tækjum og vélum sem fyrst voru reyndar á Vífilsstöðum.

 

Þar í grenndinni vann t.d. þúfnabaninn eins fyrstu og frægustu verk sín (í Vetrarmýrinni). Nýjar heyvinnuvélar voru reyndar. Fjósið þótti móderne svo sem enn má sjá frá þjóðveginum. Síðast en ekki síst eru Vífilsstaðir eiginlega nafli súgþurrkunarsögunnar því þar mun fyrsta nútíma súgþurrkunarkerfið hafa verið tekið í notkun. Þar var hann Ágúst Jónsson rafvirkjameistari og frumkvöðull á ferð.

 

Við breytingar á Vífilsstöðum má því vel og einnig minnast þáttar býlisins í framfarasögu landbúnaðarins þótt ekkert nái þó að skyggja á það góða verk sem þjóðinni var unnið þar með baráttunni við berklana, baráttu sem lauk með fullum sigri...

  

Þótt nú hljóðni hús lúinna veggja þar á hæðinni má enginn gleyma árunum hundrað Vífilsstöðum.

 

Sérhver þakkar þau svo sem hann þekkir til.