23. ágúst 2010

Veist þú um e-n er sló með hestasláttuvél?

Á liðnu vori var leitað ábendinga um menn (karlmenn og konur) sem kynntust slætti með hestasláttuvél og muna enn það verk. Nokkrar ábendingar bárust.

 

Nú höfum við m.a. með aðstoð Þjóðminjasafns (Ágústs Georgssonar fagstjóra þjóðháttasv.) tekið saman drög að spurningalista um verkið.

 

Listinn hefur þegar verið sendur nokkrum heimildamönnum.

 

En nú heitum við á hvern þann sem þekkir til líklegs heimildarmanns og les af þessum tölvuskjá að veita okkur aðstoð:

 

1. Að vera svo vinsamlegur að prenta spurningalistann út - þú finnur hann undir orðinu spurningalista-orðinu hér að framan: drepur bendli á hann og þá á listinn að opnast sem Word-skjal, ásamt verlýsingu og staðfestingu um meðferð efnisins síðar meir.

 

2. Að fara með listann til líklegs heimildarmanns og bera honum kveðju safnsins og einlæga ósk þess um aðstoð.

 

3. Að aðstoða heimildarmann við að skrá svörin ef þarf - gildir einu hvort gert er með handskriffæri eða tölvu t.d. í spurningaskjalið sjálft. Undir síðustu blaðsíðuna þarf þó að handskrifa og senda í hefðbundnum pósti.

 

4. Við bendum á að þetta getur verið upplagt verkefni nemanda í framhaldsskóla eða efstu bekkjum grunnskóla - að eiga viðtal við afa sinn/ömmu sína, eða langafa/langömmu - um þetta viðfangsefni. Fínt verkefni t.d. í sögu... nemandinn fær góða einkunn og safnið afrit af úrlausninni með heimild viðkomandi kennara.

 

5. Sé eitthvað óljóst er bara að hringja í undirritaðan í síma 894 6368 eða 437 0068 

 

Þetta er tilraun sem við erum að gera. Hún á sér rót í því að við höfum orðið varir við að heimasíða safnsins er víða lesin. Vonandi getum við þannig náð til hljóðra velgjörðarmanna - sem vilja vinna framtíðinni gagn með skráningu þessara horfnu verkmenningarminja!

 

Gangi ykkur vel - Með fyrirfram þakklæti

 

f.h. Landbúnaðarsafns Íslands

 

Bjarni Guðmundsson

Túngötu 5 - Hvanneyri

311 Borgarnes