22. ágúst 2010

Heyskaparsaga Lunddælinga á 20. öld

Lunddælingar efndu til töðugjalda í gærkvöld, 21. ág. Þar var heyskaparsaga Lunddælinga á 20. öld sögð í máli og myndum. Þeir Jón Gíslason á Lundi og Ólafur Jóhannesson á Hóli höfðu aflað ljósmynda af heyskap þar í dalnum: mönnum, hestum, tækjum og vélum.

 

 

Myndirnar sýndu þeir og skýrðu auk þess sem töðugjaldagestir tóku virkan þátt í að greina það sem var að sjá á myndunum.

 

Þannig safnaðist viðbótarfróðleikur um flestar myndanna.

 

Ljósmyndirnar vörpuðu skýru og skemmtilegu ljósi á þær miklu breytingar sem orðið hafa á heyverkum þar í sveitinni á síðustu öld, og er rétt hið sama og gerst hefur í öllum sveitum landsins.  Var enda gerður góður rómur að framtaki þeirra félaga.

 

Þeir Ólafur og Jón gáfu til kynna að þeir myndu halda áfram að afla mynda af þessu viðfangsefni og öðrum sem byggðarlagi þeirra tengist sérstaklega. Því eru þeir er myndir eiga, sem hér gætu átt við, eindregið hvattir til þess að hafa samband við þá félaga.

 

Framtak Lunddælinga er til þess fallið að halda utan um byggðarsöguna. Í því felst skemmtan og fróðleikur sem styrkir vitund og samkennd heimamanna og getur orðið öðrum byggðum efni til eftirbreytni.

 

Svo verður framtakið líka að sínum hluta framlag til þjóðarsögunnar. Það vill heimsíðungur sérstaklega draga fram fyrir hönd Landbúnaðarsafnsins en hann var á staðnum og naut fróðlegra og skemmtilegra töðugjalda.

 

Og ekki má gleyma töðugjaldakaffinu þar í Brautartungu (og súkkulaðinu): Óvíða í sveitum nærlendis eru sykurpönnsurnar sætari eða hinar betur fylltar stífþeyttum rjóma en einmitt í Lundarreykjadal.

 

Það er hins vegar þjóðvegavöldum til vansa að hafa ekki fyrir löngu lagfært veginn um Dalinn.

 

Enn er ekinn sami slóðinn og heimsíðungur hossaðist um í rútu Sæmundar & Valdimars í hópi ´vetrunga´ frá Hvanneyri laust fyrir miðjan október árið 1961 - fyrir 49 árum - til dansleiks í Brautartungu.

 

Lunddælir hafa á sama tíma margfaldað heyskaparafköst sín þjóðinni til hagræðis og sparnaðar svo illa liggur eftir hlutur þeirra sem vegi vora eiga að annast. Hér verður því að bæta úr ...

 

ES:

Ljósmyndin sem þessum pistli fylgir er úr Oddsstaðarétt í Lundarreykjadal á sjöunda áratugnum. Hana tók Ólafur Guðmundson á Hvanneyri.