13. ágúst 2010

Fjallað um þúfnabanann í Gullna Plógnum

Frægð þúfnabanans fer víða eins og fjallað var um hér á síðunni fyrir fáeinum færslum. Nú bætist meira við:

 

 

Í 31. hefti tímarits Þýska landbúnaðarsafnsins  sem er við Háskólann í Hohenheim - Der Goldene Pflug - heitir ritið er grein um þúfnabanann eftir Hollendinginn Smitshuyssen.

 

Í greininni er fjallað um upphaf og sögu þúfnabanans sem og safnið.

 

Í bréfi Smitshuyssens til heimsíðungs segir hann m.a. mikla hrifningu meðal þýskra og hollenskra fornvélunga yfir íslensku frímerkjunum fjórum sem gefin voru út fyrir tveimur árum og sýndu myndir af nokkrum einkennisvélum- og tækjum íslensku tæknisögunnar, sjá m.a. http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/70116/

 

Gullni plógurinn er mjög athyglisvert tímarit. Í 31. heftinu sem er nær 50 bls. að stærð eru ýmsar fróðleiksgreinar um þýska búnaðarsögu, m.a. um 50 ára afmæli heyhleðsluvagnsins - Ladewagen - , forntraktora, sauðfjárbúskap, Rekusafn Hohenheims og margt fleira.