3. ágúst 2010

Samlagsfata, dunkur og mjólkurbrúsi

Þegar mjólkurframleiðsla landsmanna tók að færast á iðnvætt stig samvinnufélaganna á fjórða áratug síðustu aldar urðu miklar breytingar á flestu sem að mjólkurverkum laut.

 

Ný tæki og áhöld með nýjum siðum komu til sögunnar og sumum þeirra þurfti að finna ný íslensk heiti: mjólkurbíll, mjólkurbílstjóri, brúsapallur, mjólkursamlag, mjólkurbú, samlagssmjör, mjólkurbússtjóri, samlagssvæði, verðmiðlun, mjólkurflutningaverðjöfnunarsjóður ....

 

 

Búfræðingnum Tómási Helgasyni frá Hnífsdal, sem brautskráðist frá Hvanneyri vorið 1940, varð það fyrir að hvá er skagfirskar starfsstúlkurnar báðu hann ná í samlagsfötuna fyrir sig, sem þær huguðst nota til kaffigerðar á afmælishátíð Hvanneyrarskóla 24. júní 1939.

 

Nokkru seinna réðist Tómás til vinnumennsku í Laugardælum og tók sér far með mjólkurbíl þangað austur. Þar eystra spurðu menn með hverjum hann hefði komið. Með Stefáni bílstjóra Jónssyni, svaraði Tómás. Honum Stebba dunk? spurðu þá heimamenn. 

 

Úr Laugardælum kvað Tómás þá fjósamenn hafa sent mjólkina í brúsum í mjólkurbúið (sem hét raunar mjólkursamlag í öðrum plássum).

 

Þarna var verið að tala um sama gripinn: Samlagsfata. Dunkur. Mjólkurbrúsi. Ílát, sem í dag er eiginlega horfið, en flestir kannast líklega við undir nafninu mjólkurbrúsi.

 

Enga rannsókn höfum við gert á því hvar á landinu hvert nafn var algengast né heldur því hvort fleiri kunni að hafa verið notuð.

 

Gaman væri að heyra af hvoru tveggja og eru lesendur hvattir til þess að skrifa um það línur.