30. júlí 2010

Að slá - og taka tillit ....

Um þessar mundir eru velflest tún þessa lands slegin. Um þau hafa farið járnum stórvirk tæki á mikilli ferð knúin eldsneyti líku því er nú hefur um margra vikna skeið sullast upp úr botni Mexikóflóa.

 

Fámennur hópur manna hefur með tækjum sínum séð til þess að okkur verður tryggð næg mjólk til dæmis næsta vetur - góð mjólk á viðráðanlegu verði.

 

En það var þetta með sláttinn:

 

Heimsíðungur lenti í sextugsafmæli borgfirsks skilamanns á dögunum. Hitti margra m.a. félaga sem hefur þann starfa að annast sumarhúsbyggð ónefnds stéttarfélags á ónefndum stað í Borgarfirði.

 

Það kemur ekki aðeins í hlut hans að bjarga biluðum gluggakrækjum og úr sér gengnum grillum heldur líka það að hirða flatir og aðra gróðurteiga.  Þótt okkar maður sé afkastamikill duga honum ekki stundirnar milli kl. 12 og 16 á föstudögum (skiptidögum)  til allra verkanna. Hann verður því að nota allar stundir til verka sinna  - svo að sem fæst umhverfis veki óyndi gesta sem komnir eru til að njóta friðsældar sveitarinnar.

 

Slátturinn tekur drjúga stund og til þess að vekja nú ekki eða trufla gesti með drynjandi sláttuvélarkonsert á óþægilegum tímum grípur kunningi minn til orfs og (Eylands)ljás og brúkar óspart.

 

Þægileg hrynjandin er ljárinn strýkur grundina fer vel saman við umhverfið. Þótt rísi hirðumaður árla til sláttar truflar hann á engan máta svefnró gestanna. Hann tekur tillit til þarfa þeirra.

 

Kunningi minn segir verkið mælast vel fyrir hjá gestum sem gjarnan komi þá til hans til þess að skoða verkið og ræða við hann um það. Góð og hagnýt kynning á gömlu verki.

 

Það væri annars gaman að vita hve margir hérlendir hafi brugðið ljá í gras á þessu sumri?  Vonandi margir. Þetta verk má ekki falla úr kunnáttuforða okkar. Svo lengi var það, ásamt áralaginu, ein mikilvægasta forsenda tilveru þjóðar hér norður við heimskautsbaug.

 

Meira að segja heimsíðungur sló dagstund skyldmennagarð fyrir fáeinum dögum með orfi og ljá vestrá Fjörðum. Óbærilegur hitinn kallaði fram mikinn svita.

 

Hins vegar fékk verkið bráðan endi er heimsíðungur hugist taka lokaljáförin - upp að þéttri sigurskúfsbreiðu í háblóma. Þar var þá að störfum flokkur geitunga sem þegar í stað réðist að sláttumanni eftir samræmdri áætlun.

 

Heimsíðungur átti fótum fjör að launa. Hann stóð eftir með fimm brodda hér og hvar í búki sínum og bölvaðan sviða á sömu stöðum ...

 

  ... Þótt báðir kunni til sinna verka, geitungarnir og orlofsbyggðarhirðumaðurinn, er þó sá munurinn á að hinn síðari kann líka að taka tillit ...