24. júlí 2010

Gjöf verðmætra heimilda um bútæknibyltinguna 1943-1947

Í byrjun júlímánaðar þessa sumars færðu ættmenni Jóhannesar Bjarnasonar verkfræðings frá Reykjum í Mosfellssveit Landbúnaðarsafni góða gagnagjöf.

 

Jóhannes Bjarnason (1920-1995) nam vélaverkfræði í Kanada og síðan búvélaverkfræði í Iowa, en hann varð hvað fyrstur Íslendinga til sérnáms í þeirri grein; sjá nánar á http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=206612

 

 

Vilhjálmur Þór atvinnumálaráðherra sendi Jóhannes nýútskrifaðan vestur um haf sumarið 1944, einkum til þess að kanna og útvega búvélar er hentað gætu íslenskum aðstæðum. Varð sú ferð m.a. til þess að aukinn var innflutningur ýmissa véla vestan að, eftir því sem stríðsástæður leyfðu, einkum þó búvéla frá International Harvester (IHC).

 

Á þessum kynnti Jóhannes sér einnig súgþurrkun heys, en sú tækni hafði þá verið að þróast í Bandaríkjunum. Jóhannes átti mikinn þátt í að kynna aðferðina hérlendis sem og að hanna fyrsta búnað til hennar, svo sem súgþurrkunarkerfi í heyhlöður.

 

Súgþurrkun bylti, svo sem kunnugt er, heyvinnu og heyverkun í mörgum sveitum, sjá m.a. http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/105165/

 

Í gjöf fjölskyldu Jóhannesar til Landbúnaðarsafns eru m.a. verðmætar bækur um bútækni frá fimmta áratug síðustu aldar og safn fræðigreina um grundvöll súgþurrkunar, sem þá var byggt á.

 

Sérlega áhugaverð er rækileg skýrsla Jóhannesar til atvinnumálaráðherra um búvélaöflunarferð hans til Vesturheims sumarið 1944.

 

Í sama flokki er námsritgerð Jóhannesar frá Iowa þar sem hann leggur mat á vélþörf íslenska meðalbúsins í ljósi stöðu landbúnaðar hérlendis og þeirrar búvélatækni sem þá var nýjust. Fleira úr safninu mætti nefna.

 

Það sem gerir gögn úr fórum Jóhannesar einkum áhugaverð er það að hann er í námi vestanhafs og kemur til starfa hérlendis þegar seinni heimsstyrjöldin var að sleppa taki sínu og viðhorf og verkhættir, ekki síst í landbúnaði,  að umturnast.

 

Í því umhverfi hrærðist Jóhannes sem námsmaður og síðar ráðgjafi, en líka sem beinn þátttakandi, til dæmis þegar hann var framkvæmdastjóri Orku hf árin 1944-1947. Það fyrirtæki flutti meðal annars inn búvélar (frá Massey Harris ofl.).

 

Landbúnaðarsafn Íslands færir fjölskyldu Jóhannesar Bjarnasonar verkfræðings bestu þakkir fyrir verðmæta gjöf.