16. júlí 2010

Þúfnabaninn - möguleg milligjöf í Icesave-málinu?

Það mun hafa verið árið 1947 sem þúfnabana, þeim síðasta heila á Íslandi, skolaði upp að Hvanneyri. Þúfnabani hafði á árunum 1921-1928 fært íslenskum bændum heim sanninn um að vélaafl mætti nota til túnasléttunar.

 

Nýrri og betri vélar tóku brátt að varpa skugga á þúfnabanann og hann gleymdist. Baninn á Hvanneyri varð veðri og vindum yrkisefni alþekktrar gerningalistar. Fyrir rúmum áratug tókst safninu þó með góðra manna hjálp að skjóta skjólshusi yfir banann, svo nú beljar ekki á honum saltmengað vindþrýstivatn veturna löngu. En í yljað hús verður hann að komast – og það mun hann fá í Halldórsfjósi ef og þegar efni okkar leyfa.

 

 

Þúfnabani Landbúnaðarsafnsins mun vera hinn eini „eftirlifandi“ í heiminum. Um hann vita margir.

 

Undanfarin ár hafa allnokkrir erlendir aðilar spurst fyrir um þúfnabanann, meðal annars aðilar sem hafa viljað kaupa hann í söfn sín.

 

Að minnsta kosti tveir þýskir aðilar hafa gert formleg kauptilboð í þúfnabanann, m.a. aðili sem á allar gerðir Lanz-dráttarvéla, er framleiddar hafa verið. Þúfnabaninn var einmitt smíðaður hjá Heinrich Lanz í Mannheim Þýskalands.

 

Fyrir þúfnabanann hafa verið boðnar ýmsar fornvélar, bæði dráttarvélar og verkfæri, sem fágæt teljast. Þeim er þó sammerkt að fæst þeirra varða íslenska búnaðarsögu á neinn veg. En svo hafa líka verið boðnir fjármunir.

 

Áður en lengra verður lesið skal það tekið fram að þúfnabaninn er ekki til sölu og verður ekki; til þess er saga hans of merk, auk þess sem sala hans mundi bæði varða við landslög um minjar og siðareglur safna.

 

Það er hins vegar ekki þægilegt að standa frammi fyrir fjársterkum aðila sem sér strax getuleysi okkar til þess að annast þúfnabanann og gera honum verðug skil, en hefur sjálfur flesta burði til þess að gera það svo að til sóma yrði.

 

Á dögunum barst fyrirspurn frá hollenskum aðila sem ólmur vildi fá þúfnabanann keyptan; bauð m.a. nokkra fulluppgerða forntraktora af ótilgreindum tegundum í staðinn. Fyrirspurninni var þegar í stað svarað sem hinum fyrri; að þúfnabaninn væri hvorki né yrði til sölu.

 

Að bragði kom svarpóstur fljúgandi frá Hollendingnum, stuttorður og þannig hljóðandi: „alo not for a good price $ “ ???

 

Með laskað stolt eftir Icesave gagnvart tréskóa innbyggjurum hins blauta Hollands stendur heimsíðungur nú yfir ryðbrunnum þúfnabananum í fátæklegu skýli hans  – tákni upphafs vélvæddrar túnræktar á Íslandi – og reynir að vera staðfastur í þráa sínum, þótt getulaus sé nú um stundir til þess að búa gripnum þann innlenda sess er honum telst samboðinn.

 

Heldur þann versta en þann næstbesta, sagði Snæfríður Íslandssól ...