15. júlí 2010

Sagnfræði um súgþurrkun heys - horfna verkhætti?

Færum við ríflega 20 ár aftur í tímann mundum við um þetta leiti árs heyra mishávært suð frá heyhlöðum þar sem blásari við rafmótor þerraði töður bænda, daga jafnt sem (flestar) nætur.

 

Súgþurrkun var verktækni áranna 1945-1995 svo afmörkun tímabilsins sé einfölduð. Hún var einkum sniðin eftir bandarískum fyrirmyndum.

 

Þegar mest lét mun hart nær 80% af heyfeng bænda hafa verið þurrkað við vélsúg í hlöðu. Var aðferðin því almenningseign um tíma.

 

Því er þetta nefnt að nýlega hafa Landbúnaðarsafni borist merkileg gögn um hina útbreiddu heyverkunaraðferð. Það var heiðursbóndinn Jóhannes Gestsson frá Giljum í Hálsasveit sem færði safninu gögn frá árinu 1946 en þá voru fyrstu bændur íslenskir að kynnast hinni nýju aðferð.

 

Almenna athygli mun aðferðin hafa fengið á Landbúnaðarsýningunni 1947.

 

Einn frumherjanna í bændahópi var Gestur, faðir Jóhannesar, þá bóndi á Giljum, er fékk teikningar og fleiri leiðbeiningar frá Ágústi Jónssyni rafvirkjameistara. Ágúst var einn af forgöngumönnum hinnar nýju tækni hérlendis. 

 

Meðfylgjandi mynd sýnir eitt gagnanna sem við fengum frá Jóhannesi. Hér bættist í efnisflokk sem rýr var fyrir hjá safninu. 

 

Þetta er ekki það fyrsta sem Jóhannes bóndi færir Landbúnaðarsafni en hann hefur verið því ötull liðveitandi í mörgu tilliti.

 

Og á dögunum bættist enn í súgþurrkunarsagnfræðina með gjöf  til Landbúnaðarsafns sem bráðlega verður sagt frá hér á síðunni.

 

Nefna má að lokum að fyrir allmörgum árum bárust Landbúnaðarsafni ein fyrstu súgþurrkunartækin sem notuð voru hérlendis. Þau komu frá Grund í Kolbeinsstaðahreppi. Dag einn munu þau verða pússuð upp og búin til sýningar í safninu.

 

Súgþurrkuð taðan tryggir bú

og trúna á eigin mátt ... kvað Árni G. Eylands meðal annars...

 

Já, súgþurrkunartækni kom sem frelsandi engill á sínum tíma: Hún sparaði bændum 2-3 daga þurrkun heys á hverri spildu sem kom sér vel í vaxandi vinnuaflsskorti. Hún leiddi líka til mun betri heyja í héruðum þar sem bændur náðu réttu taki á tækninni.

 

Telji lesendur sig eiga eða vita af sögulegum gögnum sem súgþurrkunina varðar sem verktækni þiggjum við mjög gjarnan að frétta af þeim.