20. júní 2010

Kanínudagurinn á Hvanneyri ...

Þrátt fyrir súldina var ýmislegt um að vera á Hvanneyri í gær: Kanínubændur kynntu kanínurækt í Halldórsfjósi eins og þeir gerðu fyrir ári síðan. Athyglisverð búgrein sem getur verið drjúg búbót. Ekki síst glöddu kanínurnar yngstu gestina.

 

Þá var gerð tilraun með kaffiveitingar í Skemmunni góðu en í undirbúningi er að þær verði fastur liður um helgar í sumar, eins og nánar verður kynnt.

 

Margir gestir litu við í Landbúnaðarsafni sem og Ullarselinu sem nýtur mikilla vinsælda, en þar boðin úrvals vara, bæði til frekari vinnslu og fullunnin, úr alíslenskum hráefnum.

 

Í hópi gesta var m.a. 20 bíla flokkur húsbílaeigenda er þessa helgi nutu náttúrufegurðar í Borgarfirði.

 

Allt eru þetta dæmi um vaxandi umsvif á Gamla staðnum svokallaða á Hvanneyri, svæðinu þar sem búnaðarskólinn var byggður upp í lok nítjándu aldar og byrjun hinnar tuttugustu.