16. júní 2010

Gleðilega þjóðhátíð!

Landbúnaðarsafn Íslands sendir öllum tenglum sínum þjóðhátíðarkveðjur. Sjálfstæðisbaráttan er eilíf. Henni lauk ekki með ævi Jóns Sigurðssonar eða 17. júní 1944. Hún stendur enn og mun standa á morgun líka.

 

 

Heimsíðungur leggur hér með mynd af Hrafnseyri við Arnarfjörð. Þar fæddist Jón Sigurðsson forseti.  Næsta ár verða liðin 200 ár frá fæðingu hans. En hvað varðar það Landbúnaðarsafn Íslands?

 

Á áttunda áratug nítjándu aldar hlutaðist Jón Sigurðsson meðal annars til um útgáfu bókar Sveins Sveinssonar, síðar fyrsta skólastjóra á Hvanneyri, um ný landbúnaðarverkfæri.  á vegum Þjóðvinafélagsins.

 

Í bókinni, sem var alger nýlunda á íslensku, gátu bændur séð hvað nýjast var verkfæra til búskapar og hvernig þau mátti smíða og nota. Með sínum hætti var bókin upphaf framfara og sjálfstæðisbaráttu ræktunarbænda sem aukinn vind fékk í sín segl erTorfi Bjarnason tók að kenna sömu fræði í Ólafsdal hálfum áratug seinna - 1880.

 

Þetta má vel muna 17. júní 2010, 135 árum síðar... Verið velkomin að sjá þetta og það sem síðar gerðist - í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri.

 

Gleymum ekki hvaðan við komum eða þeim sem greiddu okkur leið til hóglífis nútímans...

 

Gleðilega þjóðhátíð!