10. maí 2010

Frá ólafsdælskri moldskúffu til ´peylóders´

Einn af þeim góðu gripum sem Landbúnaðarsafn á úr smiðju Torfa Bjarnasonar og Búnaðarskólans í Ólafsdal er hestareka (moldskúffa). Á sínum tíma kom hún með öðrum gripum sem gjöf Búnaðarfélags Íslands til verkfærasafnsins á Hvanneyri.  Á skúffuna, sem gerð er úr járnstyrktu tréverki, vantaði þó akbúnaðinn til þess að fullburða væri. Hins vegar voru í gögnum Torfa til nákvæmar teikningar af honum.

 

Á grundvelli teikninganna hafa höfuðsmiður Landbúnaðarsafns, Jóhannes Ellertsson, og Kristján Ingi Pétursson, trésmíðameistari hjá PJ-byggingum á Hvanneyri, nú formað fagur- og nákvæmlega það sem á vantar svo nú er gripurinn kominn í tilætlað form skv. teikningum skólasveins í Ólafsdal; sjá meðfylgjandi mynd.

 

Hestareka var þarfagripur þegar hún bættist í fátæklega flóru búverkfæra íslenskra bænda. Með henni og einum hesti til aflgjafar mátti færa jarðveg til við ræktun og ýmsa mannvirkjagerð.

 

Hestarekan er eiginlega forveri ýti-tannar beltavélanna og grafvéla af ýmsum stærðum og gerðum allt til þeirra véla sem almenningur hefur kallað peylóder í daglegu tali. Nokkur munur er þó á afköstum: Tæpt hestafl hestarekunnar og hundruð hestafla mokstursvélarinnar – en vinnubrögðin að grunngerð sinni eru þau sömu.

 

Þannig var unnið með hestarekunni að með kjálkunum var egg hennar beitt niður í svörðinn/jarðveginn. Með dráttarafli hestsins fylltist rekan. Bogmeiðar undir rekunni auðvelduðu stjórn hennar og á þeim mátti aka rekunni þangað sem efnið skyldi fara. Á áfangastað var henni lyft með kjálkunum svo egg rétt stakkst í jörðu. Kjálkunum var ýtt út úr skorðum sínum á hliðum rekunnar svo hún steyptist óhindrað fram yfir sig og tæmdist. Einfalt!

Síðan var rekunni aftur stillt í fyllingarstöðu.

 

Rekur þessarar gerðar voru löngu síðar fjöldaframleiddar fyrir dráttarvélar og þá allar úr málmi. Meðal annars mátti fá moldskúffu á þann sæla Ferguson. Raunar vantar Landbúnaðarsafnið slíka skúffu þannig að vel væri hún þegin ef einhver ætti aflögu.

 

Loks má nefna að frá Korpúlfsstöðum fékk safnið fyrir allmörgum árum stóra, járnsmíðaða traktorreku, sterklega að allri gerð. Hún virðist hafa verið smíðuð hérlendis. Við höfum haft spurnir af fleiri traktorrekum þeirrar gerðar sem virðast hafa verið smíðaðar til þess að nýta reginafl fyrstu traktoranna, um 1930, – og þeim beitt með sama hætti og hestarekunum gömlu.