9. maí 2010

Eftir Eylands-þing

Eylands-þing var haldið á Hvanneyri í gær. Þar voru flutt sex erindi um ævi og störf Árna G. Eylands sem var einn af helstu forystumönnum landbúnaðarins á hinu mikla breytingaskeiði á tuttugustu öld er vélar tóku að leysa mannshöndina af hólmi.  Þá var hlutar Árna sem hagyrðings og skálds minnst.

 

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, ávarpaði þingið og minntist verka Árna.

 

Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands afhenti Landbúnaðarsafni til varðveislu bókasafn Árna G. Eylands, sem Bændasamtökin hafa varðveitt. Meðal merkra gripa þess er eintak af tímamótaritverki Árna, Búvélar og ræktun, sem höfundurinn hafði á efri árum sínum bætt inn í athugasemdum og merkilegum viðaukum.

 

Þá afhenti Ágúst Sigurðsson rektor LbhÍ Landbúnaðarsafn til varðveislu Eylands-safn búverkfæra og garðyrkjuáhalda, sem Grétar J. Unnsteinsson þáv. skólastjóri  á Reykjum, lýsti yfir á 50 ára afmæli Garðyrkjuskólans, árið 1989, að stofnað væri þar við skólann.

 

Einkennistákn Eylands-safn er páll Árna, gerð hins eldforna íslenska jarðyrkjuáhalds,  sem Ágúst afhenti Bjarna Guðmundssyni verkefnisstjóra Landbúnaðarsafns sem tákn um viðtöku Eylands-safns.

 

Hina tvo nefndu gripi má sjá á meðfylgjandi mynd.

 

Að loknum erindum og kaffihressingu var haldið í Landbúnaðarsafn þar sem gestum voru kynnt nokkur verkfæri, sem Árni G. Eylands átti mikinn þátt í að útbreiða og kynna, svo sem Eylands-ljárinn, Herkules-hestasláttuvélin og elstu traktorarnir, en Árni er líklega fyrsti traktorkúskur landsins, sem starfann stundaði að verulegu ráði.

 

Eylands-þing sóttu nær fjörutíu manns; austan úr Skriðdal, þeir er lengst áttu að.  Þingið fór fram í Borg, splunkunýjum fyrirlestrasal í vesturálmu Ásgarðs, aðalbyggingar Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

 

Efni sem kynnt var á Eylands-þingi verður tekið saman til varðveislu og frekari úrvinnslu á vegum Landbúnaðarsafns.

 

Safnið þakkar öllum sem með einum eða öðrum hætti áttu hlut að undirbúningi og framkvæmd þessa ágæta Eylands-þings.