28. apríl 2010

Frá hollvinum safnsins

Heimsíðungur hefur stundum þau orð við gesti aðspurður um rekstur safnsins að það lifi mest á sníkjum og bónbjörgum ýmissa velgjörðarmanna. Það er raunar sú leið sem nærtækust hefur orðið mörgum íslenskum menningarstofnunum.

 

Nú í sumarbyrjun er rétt að nefna nokkur dæmi um efni sem rétt hafa verið að safninu. Þau eru til þess að sýna fjölbreytileika þess sem að skolar. Því miður er það svo að ekki er unnt að taka við öllu sem býðst og boðið er, bæði vegna þess að margt er þegar til í safninu, og ekki fellur allt að söfnunarstefnu safnsins.

 .

 

 

Koma nú nokkur dæmi:

 

Kona ein hringdi fyrir kunningja sinn og bauð afar gamla fjárbyssu: fjárbyssu er fellt hafði margan sláturgripinn á ættaróðali eigandans. Vopnið hafði líka forframast í sláturtíð í húsi nálægs kaupfélags er brást samvinnuvopnið þar. Kaupfélagið var löngum einn stærsti sláturleyfishafi landsins en hefur nú verið slátrað í óeiginlegri merkingu – varð hagræðingu og forstigshruni að falli.  Byssunni var sem sagt skilað áður en svo illa fór.

 

Ungur maður bauð dísel-dráttarvél árgerð 1956, upppússaða og gljáandi fína – með sláttuvél. Hún var komin úr búi föður hans. Vélina hafði ungi maðurinn annast í anda þeirrar snyrtimennsku er einkenndi búskapinn þar á bæ. Safnið var einmitt búið að svipast um eftir slíkri dráttarvél – hana vantaði inn í dálitla seríu sem safnið á. Svo mikils metur ungi maðurinn vélina að hann mun nær sólmánuði sjálfur koma með hana og afhenda formlega. Safnið hefur þegar tekið frá heiðurssýningarstæði fyrir dráttarvélina. Greint verður frá komu hennar er þar að kemur.

 

Þá er að nefna sölumann búvéla sem á dögunum kom með tvö pappakassa hlaðna myndböndum af búvélum 9. og 10. áratugs síðustu aldar úr vélasölufyrirtæki er hann nýlega hóf störf hjá. (Meðf. mynd sýnir brot af myndbandasafninu).

 

Í fyrirtækinu var verið að hreinsa til vegna skipulagsbreytinga og barg sölumaðurinn spólunum.  Þarna má sjá ýmsa bútækni sem réði ríkjum fyrir nokkrum árum en er nú farið að slá fölva á.

 

Með tímanum verða myndirnar merkar margar hverjar, því engum dettur í hug að geyma allar þessar vélar. Verkurinn er hins vegar sá hvort myndböndin endast eða hvort í framtíðinni verða til tæki til þess að sýna þau! En sem betur fer eru nú til aðferðir er gera söfnum kleift að færa slíkt efni á milli kynslóða.

 

Þannig mætti lengi telja, og bæta við bókum sem borist hafa, ljósmyndum og ýmsu öðru, svo sem ábendingum/hugmyndum að verkum eða hlutum, sem við ef til vill nefnum síðar. Af nógu er að taka og fyrir það er Landbúnaðarsafn afar þakklátt.