13. apríl 2010

Kannast þú við svona sláttuvél?

Í könnun heimilda um íslenska sláttusögu hefur heimsíðungur dottið um mótorsláttuvélar sem falboðnar voru og seldar í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar (1931-1933). Með þessum orðum fylgir mynd af slíkri sláttuvél, sem auglýst var í Mbl. 17. febr. 1931 (... ef bendli er ýtt á myndina stækkar hún nokkuð).

 

Vélar þessar seldi Haraldur Sveinbjarnarson í Rvík. Má vera að það hafi fleiri gert.

 

Sláttuvélin virðist ganga á einu hjóli og hefur sláttugreiðu framan um þvert. Ekill gekk á eftir henni og stýrði líkt og plógi.

 

Sláttuvélar þessarar gerðar urðu og eru enn vinsælar í Alpalöndum og í Noregi því þær fóru vel í brattlendi. 

 

Hérlendis hafa svona sláttuvélar verið notaðar á tilraunastöðvum jarðræktarinnar, flestar af gerðinni Agria. Sáralítið er vitað um notkun þeirra hjá bændum.

 

Nú er spurt hvort einhver, sem þessar línur sér, kannist við úr æsku sinni eða hafi heyrt um sláttuvélar þessarar gerðar á hefðbundum búum bænda? Þær kynnu þá að hafa verið í notkun á árunum 1930-1950 eða svo.

 

Þórarinn Jónsson áður bóndi á Hamri í Þverárhlíð kannaðist við sláttuvél úr þessum flokki er var í notkun þar á bernskuárum hans laust fyrir miðja síðustu öld. Fleiri eru heimildarmenn okkar ekki - ennþá.

 

Ef einhver er fær aflögu um fróðleik um mótorsláttuvélina þá endilega hafi hann samband við undirritaðan í síma 8 44 77 40 eða á bjarnig@lbhi.is

 

Bjarni Guðmundsson