8. apríl 2010

Fjölsóttur engjafundur á Hvanneyri

Fræðslu- og fróðleiksöflunarfundurinn um borgfirsku flæðiengjarnar var haldinn á Hvanneyri 7. apríl sl.  Hann var fjölsóttur eins og sjá má að meðfylgjandi mynd.

 

Skýrt kom fram á fundinum hver gósen flæðiengjarnar voru mörgum bújörðum í héraðinu.

 

Enn muna margir síðasta skeið engjanýtingarinnar.

Fundurinn var liður í verkefni um söfnun, greiningu og varðveislu þekkingar um nýtingu engjalandanna.

 

Þau Ragnhildur í Ausu, sem er verkefnisstjóri,  og Þorkell í Ferjukoti reifuðu viðfangsefnið með erindum en síðan fræddu fundarmenn um fjölmörg atriði sem greind verða nánar og og bentu á viðfangsefni sem halda þarf til haga fróðleik um.

 

Áfram verður unnið með viðtölum við heimildarmenn auk þess sem lögð voru drög að því á fundinum að heimildarmenn, sem þar voru, skráðu vitneskju sína um einstaka þætti engjanýtingar.

 

Varð kvöldstundin bæði fræðandi og ánægjuleg.