20. mars 2010

Múrinn fallinn - konur unnu hinsta (?) vígið ...

Í dag, á sjötta Forntraktoranámskeiði Landbúnaðarsafns, LbhÍ og Jörva, gerðust þeir atburðir að (eitt) hinsta vígi karla féll.

 

Frá öndverðu hefur traktorastúss verið karla og konur hafa þar lítt að komið nema til þess að halda uppi skynsamlegri gagnrýni við traktorkaup, greiða kostnað af þeim í gírói og síðan heimabanka og þrífa smurolíu- og ryðataðan vinnugalla traktoreklanna með reglulegu millibili.

Þegar sú tíð rann upp að tímabært þótti og vinsælt varð að gera upp gamla traktora féll sú löngun saman við karlhormóna: Karlar tóku að draga að ryðhrúgur og járnabrak sem þjóðsögur hermdu að eitt sinn hefðu verið traktorar.

 

Bílskúrar og skúmaskot tóku að fyllast af þessu góssi á mörgum stöðum þar sem fyrrum stóðu friðsöm heimili. Allur tími margs karlpenings fór í að sinna járnabrakinu, sem og mest allt lausafé heimilisins. Sumarferðir um landið snerust stundum upp í eltingaleik við parta úr traktorum sem ýmist voru á lausagöngu í högum nærri fornum og nýjum góðbúum, ellegar þar heima í skemmum:

 

Tölvulegur á Í-bey og antikk-traktors-síðunni ágerðust og frá tollyfirvöldum bárust sverir reikningar...

 

Karlar hittust íbyggnir yfir krami sínu og skiptust á skoðunum og fróðleik um boltastærðir, módel, ventlabil, og hvernig best væri að ná í sundur gróinni vökvalyftu eða komast yfir dekk sem kalla mætti orgínal á Fegga, Nalla, Dojds eða Kubb.

 

Í fylling tímans drógu þeir síðan gljáandi gripinn út á sólvermdum sunnudegi og brugðu sér hring um hverfið eða hlaðið, með tilheyrandi hávaða, og uppskáru aðdáun og öfund valinna nágranna....

 

Í dag mættu sem sé á Forntraktoranámskeið á Hvanneyri tvær öflugar konur, önnur sumargóðbóndi í Eyjafirði en hin verðandi höfðingsbóndi í Árnesþingi ofanverðu. Báðar eru líklegar til stórvirkja hvað snertir varðveislu og hirðingu forntraktora.

 

Var komu þeirra fagnað sérstaklega í upphafi námskeiðs og þær boðnar sérstaklega velkomnar.

 

Haukur Júlíusson og við hinir sem töldumst til leiðbeinenda á námskeiðum þessum höfðum haft við orð að hætta ekki námskeiðunum fyrr en við hefðum náð að minnsta kosti einni konu í þátttakendahópinn. Nú er því takmarki náð - meira að segja með tveimur!

 

Múrinn er því fallinn. Konur hafa haslað sér þennan völl einnig. Megi marka reynslu á öðrum sviðum er sú breyting líkleg til góðs:

 

Að nú verði staðið að þeirri menningarhirðu sem umönnun forntraktora er með enn meiri hyggindum, hagsýni, vandvirkni og þolinmæði en þó hefur verið gert undanfarið.

 

20.3.2010 mun því verða minnst sem merkisdags í jafnréttisbaráttu kynja forntraktor-dýrkenda.