19. mars 2010

Enn einn glæsigripur Hauks Júl og félaga

Í blíðu þessa vetrar hafa Jörva-kallar á Hvanneyri strokið búk og stangir norðlenskrar dráttarvélar, af gerðinni IHC B-414, svo nú stendur hún gljáandi og fullbúin. Myndir sýnir höfuðsmiðinn, Hauk Júlíusson er stýrt hefur verkinu, undir stýri á hinni glæsilegu vél.

 

B-414 komu fyrst til landsins á öndverðum sjöunda áratugnum og fóru víða um land. Véladeild SÍS seldi þær eins og önnur tæki frá IHC. Heimsíðungur heldur að fyrsta B-414 hafi farið að Korpúlfsstöðum.

 

B-414 voru mjög stílhreinar að útliti. Díselgangur þeirra var harður og hvellur. Heimsíðungi þótti vélin heldur þunglamaleg en vökvastýrið er brátt kom á þær og nokkurt nýmæli var, bætti það upp. Tveggja hraða tengidrifið varð einnig samræðuefni framsækinna bænda.

 

B-414 var oftast búin ágætum mokstrurstækjum og sinnti því hlutverki með ágætum hvort heldur var til malar- eða skítmoksturs ellegar heysviptinga með norskri Kvernelands-kló.

 

B-414 naut sín vel í flögum við herfisdrátt eða knúning tætara sem sennilega naut of mikilla vinsælda á velmektarárum dráttarvélarinnar.

 

B-414 er sennilega ein einfaldasta dráttarvél sem til landsins hefur komið hvað varðar ytri stíl. Má segja að þar væri engu ofaukið en flest með sem þurfti. Rekja má drætti í gerð vélarinnar í gegnum yngri systur hennar B-275 og B-250 ... og raunar aftur til Farmalsins ágæta.

 

Heimsíðungur á ljúfsárar minningar ,m.a. frá slætti með B-414 og þýskri vökvasláttuvél sem við hana fékkst og er ein sú hljóðlátasta sláttuvél sem framleidd hefur verið síðan Ormur Stórólfsson sló sinn völl nær þar sem nú stendur sjoppan Hlíðarendi.

 

Margt fleira má segja um B-414 en það bíður betri tíma.

 

Hauki og hans mönnum Júlíussyni ber hins vegar lof fyrir að hafa haldið til haga og standsett svo fagurlega fulltrúa þessara snotru dráttarvéla er dyggilega þjónuðu bændum í mörgum sveitum. 

 

B-414 dráttarvélarnar voru hluti af búnaðarsögu margra bæja og velmektarsögu Véladeildar SÍS.