Í tilefni af áður kynntu ári Nallans fór í gær til prentunar bókin Alltaf er Farmall fremstur sem heimsíðungur hefur tekið saman. Áformaður útgáfudagur bókarinnar er laugardagurinn 16. júlí nk. á Farmal-fagnaði Landbúnaðarsafnsins á Hvanneyri.

Það er forlagið Uppheimar ehf. sem gefur bókina út. Hún verður í sama broti og Ferguson-bókin, lítið eitt lengri, en að sjálfsögðu í Farmal-rauðum lit.

Áhugasömum skal bent á heimasíðuna http://www.uppheimar.is en þar býður forlagið bókina á sérstöku útgáfuverði. 

 

 

Hluti af söluandvirði bókarinnar mun renna til Landbúnaðarsafns eins og varð með Ferguson-bókina. Sú er enn til sölu í annarri prentun, m.a. á sérstöku safnverði hjá safnverði Landbúnaðarsafns. Sú bók reyndist safninu fjárhagslegur styrkur - þökk sé ykkur þúsundamörgu sem keyptuð bókina !

Bókin Alltaf er Farmall fremstur hefur söguna vestur í Bandaríkjunum af þeim félögunum Cyrus Hall McCormick og William Deering og tilurð IHC-samsteypunnar.

Bókin spannar tímana frá komu fyrstu Kormáks-hestasláttuvélarinnar til Íslands laust fyrir fyrri aldamót og aftur fyrir komu þeirrar stór-huggulegu dráttarvélar, Farmals B-414.

Þar í millum liggja IHC 10-20, W-4, beltavélarnar TD 6 og stóru systur hennar, Farmall A og Cub, þýsku Farmalarnir ofl. auk 6 frægra verkfæra frá IHC sem fá sérstaka umfjöllun.

Eðli máls samkvæmt er stiklað á stærri þúfum en gert var í Ferguson-bók þar sem eiginlega var aðeins ein dráttarvél var undir.

Í bókinni eru langt til 180 myndir, víða að komnar, bæði úr opinberum söfnum og einkasöfnum. Forsíðumyndin sýnir hann Jóa Ellerts slá Hvanneryarfit með Farmal Cub sumarið 2006.

Heimsíðungur fékk hjálp fjölda heimildarmanna við gerð bókarinnar - með textum, myndum, frásögnum og margvíslegum ábendingum.

Bókin er helguð minningu Árna G. Eylands sem mjög kemur við sögu í henni, enda vann hann meira að innflutningi, sölu og leiðbeiningum um IHC-vélar en nokkur annar...

Tækifærið er notað til þess að þakka öllum sem hjálpuðu til við gerð bókarinnar. Vonandi getur hún orðið áhugafólki umbúvélar og sögu sveitanna nokkur dægrastytting.