28. ágúst 2014

Af búferlum

Þessi fallegi síðsumarsdagur var valinn sem Flutningadagurinn mikli - aðalfardagur Landbúnaðarsafns.

 

Mannsterkir mættum við árla dags til flutninga og áður en dagur var runninn að nóni höfðum við flutt um það bil 14,4 tonn af járni þrútnu af menningarsögu íslenskra sveita.

 

Flutningasveitina skipuðu PJ-bygginga- og hagleiksmennirnir Pétur Jónsson, Kristján Ingi Pétursson og Óðinn Guðmundsson, auk þeirra Unnsteinn Elíasson sérlegur grjótlistamaður safnsins, Jóhannes Ellertsson aðalvélameistari og hagleikssmiður safnsins og talsmaður þess og áhyggjuberi Bjarni Guðmundsson.

 

Flutningar gengu afar vel og lipurlega, en heimsíðungur viðurkennir þó að hafa svitnað töluvert og því var gott að komast í bað á eftir...

meira...

19. ágúst 2014

Af flutningum safngripa

Fimmtudaginn 14. ágúst sl. var rúllað með fyrstu dráttarvélina á hinn nýja stað safnsins. Jóhannes Ellertsson vélameistari ræsti Farmall Cub safnsins, ættaðan frá Ytri-Skeljabrekku, og snyrtan af Hauki Júlíussyni og hans mönnum á sinni tíð.

 

Fyrir eigin afli ók gekk Kubburinn á hina nýju slóð, og var ekki annað að sjá og heyra en að honum félli  dável við fyrstu kynnin.

meira...

12. ágúst 2014

Ljáðu mér ljá í ljána . . .

Um þetta leyti árs birta menn gjarnan myndir af veiði sinni, fiskbröndum raðað snoturlega í grasið.

 

Heimsíðungur er hins vegar lítill veiðimaður en til þess að fylgja tískunni notaði hann blíðviðrið í gær til þess að flokka, merkja, skrá og ljósmynda hluta af ljáasafni sem honum hefur tekist að nurla saman á allmörgum árum.

 

 

Glöggir lesendur síðunnar hafa ugglaust tekið eftir því að klifað hefur verið á því hvort einhverjir eigi afbrigðilega gamla sláttuljái. Heimsíðungur er nfl. að reyna að skrifa bók um slátt og er söfnunin liður í gagnaöflun vegna bókarskrifanna. 

meira...